Hver er þinn persónulegi innanhússtíll?

Hver er þinn persónulegi innanhússtíll?

Scandinavian, Japandi, Minimalist, Contemporary, Wabi Sabi og fleiri eru allt innanhússtílar sem koma og fara í trendum. Ef við eltum alltaf nýjasta trendið erum við stanslaust að skipta um innanhúsmuni, kaupa það nýjasta sem allir "þurfa" að eiga því allir eiga það og veitir okkur skammtíma ánægju, sem veldur því að heimilið okkar verður ekki persónulegt. Hinsvegar er hægt að aðhyllast einhverjum sérstökum innanhússtíl en bæta svo sínum persónulega stíl við. 

En þá er spurningin, hver er þinn persónulegi stíll? Það getur verið erfitt að finna hann þar sem sem við erum stanslaust að fá upplýsingar um nýjasta nýtt, að hitt og þetta sé það flottasta í dag, einhver hlutur sé alveg ómissandi o.s.frv. Einnig getur okkur fundist ákveðinn stíll flottur á mynd og heima hjá öðrum en við fílum ekki að hafa hann heima hjá okkur. 

Við viljum að persónulegi stíllinn okkar standist trend og strauma. Til að finna út hver þinn stíll er, er gott að þekkja sín gildi og pæla hvers þú þarfnast til að lifa lífi sem gefur þér orku og veitir þér ánægju. 

Ég ætla að taka mig sem dæmi til að fá nánari sýn á þetta.  Eftirfarandi eru mín gildi og þess sem ég þarfnast:

  • Samverustundir með fjölskyldu og vinum
  • Hreinskilni og traust
  • Me time
  • Ævintýri/ævintýraferðir
  • Útivera - náttúra
  • Hreyfing
  • Húmor/gleði - fiflaskapur

Ef ég loka augunum og hugsa um mínar draumaaðstæður er ég í sumarbústað inn í skógi með fjölskyldu og vinum. Við erum búin að hreyfa okkur utandyra fyrripart dags með því að fara í gönguferð, hjóla eða skíði og komum svo þreytt en endurnærð aftur í bústaðinn, förum í pottinn, spjöllum og hlæjum yfir arineld og kósý. Við eldum okkur svo góðan kvöldmat, komum krökkunum í rúmið og spilum um kvöldið.

Flest öll mín gildi koma fyrir í þessum draumaaðstæðum og það er það sem við viljum miða við á hverjum degi, að lifa eftir gildunum okkar og þess sem við þörfnumst. Heimilið okkar hjálpar við að vekja upp tilfinningar sem við viljum að séu til staðar, í mínu tilfelli er það friður, ró, gleði, ánægja og afslöppun.

En hvernig útfæri ég þetta yfir á minn persónulega stíl?

Það tók mig nokkur ár að komast að mínum persónulega stíl og er ég tiltölulega nýbúin að finna það út. Fyrsta heimilið okkar var t.d. með Skandinavískum stíl því ég vissi ekkert hvað ég fílaði og fannst svo flottar myndir á Pinterest í þessum stíl. Það var allt frekar ljóst og grátt og ekki mikið af persónulegum hlutum sem gerði það að verkum að heimilið mitt vakti aldrei upp góðar tilfinningar hjá mér eða veitti mér þess sem ég þarfnaðist út frá mínum gildum. 

Ég hef komist að því að minn persónulegi innanhússtíll er náttúrulegur og róandi. Ég vil hafa náttúrulega hluti í kringum mig sem veita mér ró og kyrrð í huganum. Ég er ekki hrifin af nýjum, fjöldaframleiddum og glansandi hlutum, heldur vil ég draga náttúrunna inn með hlutum sem eru óreglulegir, lífrænir og gefa hlýleika. Litirnir mínir eru neutral jarðlitir og ég nýt þess að bæta við hlutum sem eru handgerðir þar sem ég veit að manneskjan sem bjó þá til lagði mikla vinnu, tíma og ást í að gera hlutinn, og ekki skemmir fyrir að ég ein á nákvæmlega þannig hlut, engin annar. Sumum þykir kannski heimilið mitt of rustic en það er nákvæmlega eins og ég vil hafa það því náttúran veitir mér orku en á sama tíma ró og kyrrð. Hlutirnir mínir eru tímalausir og ég vel gæði framyfir magn. 

Sem betur fer höfum við ekki öll sömu gildi, skoðanir og stíl, því þá væri heimurinn ansi litlaus og einhæfur. Það sem hentar mér, hentar ekki endilega þér

Ég hvet þig til að hugsa út í hver þinn persónulegi innanhússtíll sé og yfirfæra það yfir á heimili þitt, sjáðu hvort það muni ekki bæta líf þitt til hins betra.

Uppáhalds innanhússtílistinn minn Natalie Walton sendi út svona quiz á dögunum til að finna út þinn persónulega innanhússtíl. 

Íris Sverris​

Slow Living