Samfélagsmiðlar
Hvers vegna tengistu einni manneskju frekar en annarri og öðru heimili frekar en öðru, persónuleikinn ekki satt? Ég geri mér grein fyrir að það er margt annað sem spilar inn í líka, en persónuleikinn er risastór hluti!
Fylgistu með Love Island (vonandi fleiri en ég). Hvers vegna heldurðu að þættirnir eru orðnir svona leiðinlegir? Jú fólkið sem fer í þessa þætti í dag er svo mikið að passa sig út á við, það þarf allt að vera svo fullkomið til að fá samning eftir þáttinn á samfélagsmiðlum að við tengjumst þeim ekki persónulega. Það þarf allt að líta svo vel út, út á við.
Svo ég haldi áfram með þessa þætti, bare with me, það er samhengi í því sem ég er að reyna að koma á framfæri, þá voru gömlu þættirnir skemmtilegri því þar var fólk bara eins og það er, voru manneskjur en ekki vélmenni, ekki að pæla hvernig ímynd þeirra lítur út, út á við. Svo þegar þáttunum lauk og þú fórst að fylgja þeim á samfélagsmiðlum, þá voru þetta ekki sömu manneskjurnar því allt í einu voru þær orðnar bara leiðinlegar (afsakið hreinskilnina) og þú nennir ekki að fylgjast með þeim. Það var allt orðið svo vélrænt, yfirborðskennt og ópersónulegt og það sem gerði þessa þætti skemmtilega voru persónuleikarnir, átökin og það manneskjulega í þeim.
Samfélagsmiðlar eru rosalega mikill frontur sem er gott og vel og ég skil það alveg, en við verðum að vera meðvituð um það (er að reyna að segja sjálfri mér það líka). Ég er alveg sek sjálf, ég skoða kannski highlight hjá mér á instagram og það lítur allt svo ægilega vel út og það er eins og þetta hafi allt gerst á einni viku en er raunar tekið á nokkrum árum og safnað svo á einn stað þannig það líti út fyrir að vera allt saman tekið á einni viku. Auðvitað lítur það vel út og ég er ekki að setja inn allt hitt sem gerist á milli því ég hef ekki áhuga á því. Ég er ekki að segja að fólk eigi að setja allt inn, heldur að setja bara það sem þú vilt, óháð því hvað hvað þú heldur að öðrum finnist.
Mér finnst ekkert leiðinlegra en að fylgja einhverjum einstakling eða fyrirtæki þar sem allt virðist fullkomið og búið að leggja ægilega mikla vinnu í að breyta myndum, nota filter, laga hitt og þetta. Mér finnst agalegt að þurfa að sjá um samfélagsmiðla hjá fyrirtækinu þar sem ég á love/hate relationship við þá og ofhugsa að setja inn hluti. Ég hugsaði mikið (segi þetta í þátíð en þetta er raun og veru í nútíð því ég er ekki alveg komin þangað) hvað ætli hinum og þessum finnist um að ég setji þetta inn, þetta passar ekki eða lítur ekki nógu vel út o.s.frv.
Þið trúið því ekki hvað ég eyddi mörgum klst í að setja inn allskonar í story og annað í gegnum Canva af því það lítur svo vel út. Ég var svona 4-6 klst, já þið lásuð rétt. Ég eyddi 4-6 klst að gera jólaopnun í þessu appi af því það lítur svo vel út! Kannski ekki að marka mig þar sem ég er alveg tækniheft og kannski kærir sig eitthver um að eyða tímanum sínum í þetta, en það er ekki fyrir mig.
Þannig nú er ég að æfa mig í að hætta að gera það sem ég held að "eigi" að gera og gera það sem mig langar að gera og líður vel með.
Til að yfirfæra þetta yfir á heimili, þá er skemmtilegra að koma inn á heimili og eiga heimili þar sem persónuleikinn skýn í gegn og það sést að þú nostrir við það.
Skulum taka mig sem dæmi svo þið skiljið hvað ég á við. Ég er mjög róleg og vil hafa kósý, en ég er líka félagsvera og vil hafa fjölskyldu og vini í kringum mig. Mér líður best þegar ég er úti í náttúrunni og þegar það er hreint og snyrtilegt í kringum mig (eitthvað erfitt þessi árin þar sem ég á þrjú lítil börn). Við erum aktív fjölskylda sem viljum fara út að hjóla, skíða, ganga, sund, ævintýraferðir og þess háttar, en slappa af inn á milli og hafa kósý. Mottóið okkar er "Því meira vesen, því skemmtilegra". En við viljum og þörfnumst að hafa rólegt og kósý inn á milli til að hlaða batteríin.
Ég leysi það þannig að litirnir sem ég vel inn á heimilið eru náttúrulegir jarðlitir, er með mikið af timbri, teppum, púðum, kertum, arinn og góðan sófa. Eldhúsborðið og stofan þurfa að rúma fleiri en bara okkur þar sem við fáum oft fjölskyldu og vini í heimsókn. Myndirnar sem ég er alltaf á leiðinni að setja upp á vegg munu vera af okkur í útilegu, hjóla-, skíða-, og ævintýraferðum. Forstofan stór því við eigum mikið af útivistarfötum og ég er búin að taka heimilið hægt og rólega í gegn hvað varðar hluti, en við viljum frekar hafa færri og vandaðari en fleiri og einnota.
Ég skil vel að þú vitir ekki hvernig þú eigir að snúa þér í þessu, því ég var þar fyrir ekki svo mörgum árum. Það eru ekki nema 8 ár síðan ég fór að hafa áhuga á innanhúshönnun og fann út hver gildin mín væru. Hjómar eins og ég sé með allt á hreinu sem er alls ekki.
Hættum að reyna.. Reyna að hafa allt fullkomið og reyna að hafa allt ófullkomið. Hafa hlutina bara eins og þeir eru
Íris Sverris