Slow Living
Lokaðu augunum og ímyndaðu að þú sért stödd/staddur á stað sem veitir þér ánægju, gleði, ró og fyllir þig af orku. Ekki örvænta ef þú finnur engan stað í fyrsta sinn, það mun koma. Ég skal segja þér frá mínum.
Ég er stödd í bústað inn í skógi, stundum er snjór og stundum er sumar og sól. Húsið er úr timbri og húsgögn eru vel valin, fá en af góðum gæðum. Það er kveikt á arninum, kertin flöktra og ég er að spila með vinum um kvöld. Það heyrist hlátur, mikið spjall, snark í arninum og mögulega hreyfast tréin aðeins úti.
Ef það er sumar og sól, sé ég mig fyrir mér vera úti að leika í skóginum með börnunum mínum, við finnum læk sem við erum að vaða í, kasta steinum, hlæja, skoða umhverfið og náttúruna. Það fer allt eftir því hvernig skapi ég er í hvort virkar.
Oft getur verið nóg að hugsa um þinn stað og þá fyllistu aftur orku. Gott getur verið að stansa annað slagið yfir daginn eftir amstur dagsins og hugsa hvers þarfnast ég?
Í dag þykir of algengt og "töff" að segjast hafa engan tíma og margir keppast um að hafa yfirfulla dagskrá þannig að það sem er þér dýrmætast stendur á hakanum. Kannski var ekki meðvituð ákvörðun að hafa svona mikið að gera, en heimurinn í dag „ætlast“ til þess af okkur. Allir þessir samfélagsmiðlar, metingur, stéttaskipting, útsölugeðveiki, opnunartímar fram á nótt o.s.frv. eru ekkert að hjálpa okkur. Það er auðvelt að týnast í hraða heimsins, en er það lífið sem við viljum lifa? Gera það sem er ætlast til af okkur en ekki það sem við þörfnumst eða viljum gera? Það sem væri gott að prófa er að segja meira nei. Segja nei við hlutum sem þið viljið ekki taka þátt í, hlutum sem láta ykkur líða eins og þið hafið sagt já, við hina manneskjuna en í raun og veru nei við ykkur sjálf. Segðu nei við hlutum sem dregur úr þér orku og meira já við hlutum sem veita þér gleði og ánægju.
Ég las bókina Slow eftir Brooke McAlary og erftir það var ekki aftur snúið! Bókin er um slow living lífsstíl sem gengur út á að einfalda líf sitt á öllum stöðum, hægja á og taka meðvitaðar ákvarðanir. Vera þakklátur fyrir það sem þú hefur, stoppa, hægja á, horfa í kringum þig og taka eftir litlu hlutunum sem gefa þér ánægju. Gera færri hluti, en af meiri gæðum! Það er ekki rétt eða röng leið og enginn fetar sömu slóðina því við erum öll með mismunandi áhugamál og gildi.
Við getum einfaldað líf okkar með því að spyrja okkur nokkurra spurninga og velt því fyrir okkur hvort við séum að lifa eftir því. Spurningar eins og „hvað skiptir mig mestu máli í lífinu?“, „hvað lætur mér líða vel?“ Ertu að lifa samkvæmt því eða farin aðeins út af sporinu vegna hraðans í heiminum í dag. Það ljáir þér enginn fyrir að halda að þú þurfir að gera allt, því umhverfið segir þér að gera það ómeðvitað eða meðvitað. Gerðu nákvæmlega eins og þú vilt og eins og þér líður best með.
Því hversu leiðinlegt er að lifa lífi annarra en þíns sjálfs? Það er enginn með nákvæmlega sömu gildi og það sem skiptir mig máli skiptir þig kannski ekki máli. Veldu hluti inn á heimilið sem þú veist að þér líður vel með að hafa heima hjá þér, passar við þinn lífsstíl og veitir þér orku. Ekki velja bara það sem er í tísku eða láta mig eða aðra segja þér hvað sé mikilvægt að eiga.
Slow living lítur ekki út eins og ákveðið hús. Þú þarft ekki að hafa allt í beige, alls engin barnaleikföng á gólfinu og guð hjálpi þér ef þú ert ekki búin að setja í uppþvottavélina.
Að taka meðvitaða ákvörðun er lykill að svo mörgu. Að taka meðvitaða ákvörðun hvaða fólk þú vilt umgangast, hvað þú vilt gera á hverjum degi, hvernig umhverfi þú vilt hafa og hvaða vörur þú velur inn á heimilið þitt.
Hvernig væri að við öll hægjum aðeins á, tökum inn það sem er í kringum okkur hvort sem það er fólk, heimili, húsgögn, náttúra eða annað í umhverfi okkar.
Njótum þess að vera með fólkinu okkar, hittumst og lifum eins og við viljum lifa alla ævi, því Slow living er ekki eitthvað sem þú klárar á þremur mánuðum, heldur er það eitthvað sem þú lifir eftir alla ævi!